Kaffiekra í Kólumbíu

Fyrir (þó) nokkrum vikum síðan var ég stödd í Salento í Kólumbíu. Salento er yndislegur lítill bær í 6 tíma fjarlægð frá höfuðborginni, Bogóta. Eitt sem maður verður að gera í Salento er að fara á kaffiekru. Við ákváðum að fara á eina þeirra sem heitir Finca el Ocaso Salento og fara í skoðunarferð og kaffismökkun. Þar sem engin strætó eða neitt slíkt er í bænum fórum við á aðaltorgið þar sem við biðum eftir jeppa sem átti að skutla okkur á áfangastað. Voða frjálslegt þar sem við tróðum okkur á pallinn og restin af hópnum hékk utan á jeppanum.

Ég hef aldrei komið á jafn fallegan stað og þennan en býlið var uppi á hæð með klikkuðu útsýni. Leiðsögumaðurinn fór með okkur í gegnum allt ferlið frá kaffiberjunum til kaffisins; við fengum að fara á kaffiekruna og tína berin, smakka þau og að lokum gróðursetja þau.

Mér fannst svo frábært hvað þetta var sjálfbært en allt sem þau þurfa í framleiðsluna og til viðhalds á kaffiekrunni rækta þau sjálf. Þau nota engin eiturefni eða slíkt á ekrurnar heldur búa þau til moltu úr gömlum kaffiberjatrjám sem framleiða ekki lengur ber og öll berin eru handtínd. Berin eru síðan flokkuð eftir gæðum, en þau eru öll notuð til að framleiða kaffi. Meira að segja hýðið utan af berjunum er nýtt og mér skildist að það væri notað til að búa til te.

Þetta endaði allt á kaffismökkun sem stóðst sannarlega væntingar. Ég var mjög hrifin af kaffisíunum sem þau voru með en þær voru gerðar úr bambus sem vex á býlinu. (Hefði verið til í að kaupa eina slíka en ekki viss um að það hefði farið vel um hana í bakpokanum mínum).Kaffið sem þau framleiða og selja er flokkað sem háklassa kaffi. Mest af því er selt í útflutning. Í rauninni er flest háklassa kaffi sem framleitt er í Kólumbíu flutt út landi svo að kaffið sem heimamenn drekka er ekki í sama gæðaflokki. Leiðsögumaðurinn sagði t.d. að stór hluti Kólumbíubúa hefur aldrei smakkað “háklassa” kaffi.

Til að bera þetta saman við þær kaffiekrur sem teljast ekki sjálfbærar eða lífrænar þá eru þau kaffiber ræktuð á opnum akri í sólinni. Þá eru engin önnur tré, sem hjálpa til að við að halda jarðveginum frjóum og engir fuglar, sem hjálpa til við að halda óæskilegum skordýrum frá. Þessar kaffiekrur notast við ónáttúrulegan áburð og skordýraeitur. Síðan eru vinnuvélar notaðar til að tína berin.

Ef einhver á leið um Kólumbíu þá get ég ekki mælt nógu mikið með þessum stað.

IMG_6075
Bærinn

IMG_6072

IMG_6083
Einn af jeppaleigubílunum
IMG_6153
Útsýnið á býlinu
IMG_6101
Tína ber
IMG_6106
Kaffiberin. Mjög sæt á bragðið.
IMG_6121
Kaffihvutti
IMG_6128
Kaffismökkun. Þarna sjáiði bambus kaffisíuna
IMG_6146
Cafe de Colombia
IMG_6178
Eins og ég segi. Gullfallegur staður

Leave a comment